Það vakti athygli og furðu margra í gær að Scott McTominay, leikmaður Manchester United, væri látinn taka hornspyrnur í leiknum gegn Sviss í 2. umferð riðlakeppni EM.
Leiknum lauk 1-1, mjög mikilvægt stig fyrir Skot sem eiga nú enn möguleika á að fara í 16-liða úrslit. Það var McTominay sem gerði mark þeirra, en miðjumaðurinn hefur verið hvað mest ógnandi fram á við með skoska landsliðinu.
Það vakti því furðu margra þegar þeir sáu hann taka föst leikatriði í leiknum í gær.
„Af hverju er McTominay að taka hornspyrnur í stað Gilmour og McGinn þegar hann er okkar stærsta hætta í teignum?“ spurði einn netverji og mun fleiri tóku í sama streng.
„Af hverju tekur McTominay hornsspyrnur og aukaspyrnur? Hann ætti að vera að skalla þær inn,“ skrifaði annar.
Enn annar skrifaði: „Að McTominay sé að taka hornspyrnur er án vafa ein galnasta ákvörðun sem ég veit um.“