Eins og gefur að skilja er portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo einn umtalaðasti leikmaður Evrópumótsins í Þýskalandi. Hann var á sínum stað byrjunarliðinu og spilaði allan leikinn í sigri á Tékkum í fyrsta leik í gær.
Það var mikið rætt um hinn 39 ára gamla Ronaldo í upphitun RÚV fyrir leikinn. Var því til að mynda velt upp hvort hann ætti að vera í liðinu, kominn á þennan aldur og stað á ferlinum, en hann spilar í Sádi-Arabíu.
Þessi vangavelta fór öfugt ofan í sparkspekinginn og hlaðvarpsstjörnuna Sigurð Gísla Bond Snorrason, sem er mikill aðdáandi Ronaldo.
„Var ég að heyra rétt á Rúv, að það væri slæmt fyrir Portúgal að hafa Cristiano Ronaldo inná vellinum? Ábyggilega alveg glatað að vera með besta markaskorara sögunnar í liðinu sínu,“ skrifaði hann á X (áður Twitter).
Ronaldo komst svo vel frá sínu gegn Tékkum, en frammistaða hans var til að mynda til umræðu í hlaðvarpi 433.is um EM.
„Hann var sprækur, var ennþá að hlaupa til baka á 88. mínútu. Hann, eins og N’Golo Kante, hefur haft gott af því að fara til Sádí,“ sagði Hörður Snævar Jónsson þar.
„Miðað við hlaupagetuna og hvernig Ronaldo spilaði í gær held ég að hann ætti bara að spila alla leiki.“
Var ég að heyra rétt á Rúv, að það væri slæmt fyrir Portúgal að hafa Cristiano Ronaldo inná vellinum? Ábyggilega alveg glatað að vera með besta markaskorara sögunnar í liðinu sínu
— Sigurđur Gísli (@SigurdurGisli) June 18, 2024