Ian Wright, goðsögn Arsenal, talaði ekki vel um varnarmanninn Ryan Porteous eftir leik Þýskalands og Skotlands í gær.
Porteous fékk beint rautt spjald og það verðskuldað í 5-1 tapi gegn Þýskalandi í opnunarleik lokakeppni EM.
Porteous missti hausinn í fyrri hálfleik og bauð upp á mjög groddaralega tæklingu sem Ilkay Gundogan lenti í.
Wright segir að Gundogan sé í raun heppinn að vera ómeiddur eftir tæklinguna og eru margir sem taka undir þau ummæli.
,,Þetta var virkilega slæmt, þetta var óhugnanleg tækling,“ sagði Wright í settinu hjá ITV.
,,Það besta við þetta allt saman er að Gundogan er ekki illa meiddur. Þetta hefði getað endað hörmulega. Þetta var það síðasta sem Skotland þurfti í þessum leik.“