Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu telur að Hákon Rafn Valdimarsson muni ekki fá tækifæri í liði Brentford í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Aron dásamar Hákon sem er orðinn markvörður íslenska landsliðsins en hann samdi við Brentford í janúar.
Hákon hefur ekkert spilað síðustu sex mánuði en Aron telur að hann sé maður framtíðarinnar hjá Brentford.
„Ég er mjög ánægður með Hákon, hann hefur komið sterkur inn í þetta og það er kraftur í honum,“ sagði Aron Einar í Þungavigtinni.
„Hann er með þannig hugarfar, ég reikna ekki með því að hann spili í ensku úrvalsdeildinni í ár.“
Aron segir að Hákon sé flottur karakter. „Það kæmi mér samt ekki á óvart, ég dýrka hann. Hann er óhræddur við allt, það kæmi mér ekki á óvart. Hann er samt keyptur fyrir framtíðina.“
Aron hefur misst af síðustu landsleikjum vegna meiðsla og var spurður að því hvort það vantaði fleiri sterka karaktera í þennan hóp „Það er undir okkur komið að búa til karaktera sem taka ábyrgð, við sem erum með reynslu þurfum að taka það til okkur. Við getum búið til karaktera, ég hef fulla trú á því að menn stígi upp í það verkefni.“