Eins og við mátti búast er enska pressan ekki að fara neinum silkihönskum um enska landsliðið eftir óvænt 0-1 tap gegn Íslandi í æfingaleik í gær. Leikurinn fór fram á Wembley.
Strákarnir okkar spiluðu fyrri hálfleik frábærlega og gáfu fá færi á sér. Á 12. mínútu kom Jón Dagur Þorsteinsson íslenska liðinu yfir eftir stórgóða sókn. Lék hann á John Stones og renndi boltanum framhjá Aaron Ramsdale í markinu. Staðan í hálfleik 0-1.
Seinni hálfleikur var ekki síðri hjá Íslandi, sem hefði hreinlega getað skorað fleiri mörk. Áfram gekk enska liðinu illa að ógna og hafði Hákon Rafn Valdimarsson í marki Íslands fremur lítið að gera.
Englandi tókst ekki að finna jöfnunarmark og meira var ekki skorað. Lokatölur 0-1, glæsilegur sigur Íslands á Englandi staðreynd. Sannkölluð liðsframmistaða.
Enska liðið ætlar sér stóra hluti á EM í Þýskalandi í sumar og því ljóst að úrslit gærkvöldsins eru reiðarslag. Þess má geta að það var baulað hressilega á enska liðið í leikslok í gær.
Enska pressan kjarnar þetta ágætlega inn eins og sjá má í fyrirsögnum þeirra hér að neðan.