Thierry Henry þjálfari franska landsliðsins á Ólympíuleikunum í sumar fékk ekki að velja alla þá leikmenn sem hann vildi.
Þannig vildi Henry taka William Saliba varnarmann Arsenal með á mótið en enska félagið bannaði það. Saliba verður þá nýlega búinn með Evrópumótið og tímabilið hjá Arsenal að hefjast.
Chelsea bannaði Henry einnig að velja Malo Gusto og Benoit Badiashile en hann vildi taka báða með.
Chelsea ákvað hins vegar að leyfa Lesley Ugochukwu að fara á mótið sem fram fer í Frakklandi.
Henry stýrir liðinu í sumar en hann segir að hann hefði viljað fá Kylian Mbappe með á mótið en það hafi aldrei farið neitt lengra.
Henry fær hins vegar að taka Alexandre Lacazette framherja Lyon en leyfi er fyrir þremur eldri leikmönnum á mótið sem er annars fyrir U23 ára leikmenn.
Þá verða þeir Jean-Philippe Mateta og Michael Olise leikmenn Crystal Palace í hópnum.