Sóknarmaðurinn Vitor Roque hefur ákveðið að taka U-beygju og er tilbúinn að reyna eitt tímabil til viðbótar hjá Barcelona.
Um er að ræða efnilegan Brasilíumann sem fékk fá tækifæri í vetur en hann var fenginn frá Atletico Paranense í heimalandinu í janúar.
Roque er aðeins 19 ára gamall og var búinn að ákveða það að yfirgefa Barcelona í sumar og þá á lánssamningi.
Hann er nú hættur við eftir komu Hansi Flick sem er tekinn við liðinu en Xavi var áður stjóri liðsins og virkaði ekki hrifinn af Brassanum.
Roque skoraði aðeins tvö mörk fyrir Börsunga á síðasta tímabili í 16 leikjum en var oftar en ekki notaður sem varamaður.
Umboðsmaður leikmannsins hefur staðfest að hann sé ekki á förum og verður fróðlegt að sjá hvort hann fái fleiri tækifæri eftir sumarið.