Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var temmilega sáttur með 1-1 jafntefli gegn Austurríki í undankeppni EM í dag.
Ísland fékk sín tækifæri til að skora í fyrri hálfleiknum en það voru hins vegar heimakonur sem leiddu 1-0 eftir hann. Sarah Puntigam skoraði markið af vítapunktinum á 26. mínútu. Íslenska liðið leitaði að jöfnunarmarki og þegar um stundarfjórðungur lifði leiks fékk liðið vítaspyrnu. Það var fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir sem fór á punktinn og skoraði hún af miklu öryggi.
Stelpurnar okkar voru líklegri í lok leiks en meira var ekki skorað og lokatölur í Austurríki 1-1.
„Við komum til baka og þurftum að hafa fyrir því. Mér fannst við vera að skapa allan tímann og fannst við líklegri til að skora. Mér fannst seinni hálfleikur mjög góður. Í lokin hefðum við viljað skora. Þetta snýst bara um að halda áfram. Við þurfum að spila næsta leik og hann verður erfiður,“ sagði Þorsteinn við RÚV eftir leik.
Liðin mætast að nýju á þriðjudag.
„Mér fannst við sýna í dag að við eigum að geta unnið þær á þriðjudaginn. Það er bara nýtt upphaf á þriðjudaginn. Við þurfum að koma okkur gír fyrir þriðjudaginn hægt og rólega og vera klár í alvöru leik þar.“