Jordan Henderson var ekki valinn í 33 manna landsliðshóp Gareth Southgate, þjálfara Englands, fyrir komandi leiki gegn Bosníu og Íslandi í næsta mánuði. Sá síðarnefndi segir ákvörðunina hafa verið erfiða.
33 manna hópurinn verður skorinn niður í 26 leikmenn eftir leikina gegn Bosníu og Íslandi, en Strákarnir okkar mæta þeim ensku 7. júní. Þeir leikmenn sem eftir standa fara á EM í Þýskalandi en ljóst er að Henderson verður ekki þar.
„Það er erfitt fyrir mig að skilja Henderson eftir utan hóps. Hann hefur alltaf sýnt mikinn stuðning,“ sagði Southgate í dag um ákvörðun sína.
Henderson gekk í raðir sádiarabíska félagsins Al-Ettifaq frá Liverpool síðasta sumar en var samt áfram valinn í enska landsliðshópinn. Í janúar fór hann svo til Ajax en hann steig nýverið upp úr meiðslum.
„Það sem gerði útslagið eru meiðslin sem hann varð fyrir í síðasta verkefni. Hann missti úr fimm vikur og hefur ekki komið sér á það stig sem til þarf aftur,“ sagði Southgate enn fremur í dag.