„Ekki kjósa mig ef þið viljið stöðnun,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, nýr formaður KSÍ í framboðsræðu sinni á ársþingi KSÍ um helgina. Þorvaldur hafði þá betur í kjörinu gegn Guðna Bergssyni og Vigni Má Þormóðssyni.
Þorvaldur hafði í aðdraganda þingsins látið verkin tala og virðist með þeim hafa heillað hreyfinguna. Í annari umferð kosninganna, sem var á milli Vignis og Þorvaldar, deildust atkvæðin þannig að Þorvaldur Örlygsson fékk 51,72% atkvæða (75 atkvæði) og Vignir Már Þormóðsson fékk 48,28% atkvæða (70 atkvæði).
Ræða Þorvaldar á þinginu var með þeim hætti að óákveðnir eða þeir sem kusu Guðna í fyrstu umferð voru líklegir til þess að færa sig til Þorvaldar. Hann heilaði salinn og það varð raunin. Vignir var efstur í fyrstu umferð en Þorvaldur fékk til sín 20 atkvæði frá fyrstu umferð á meðan Vignir bætti við sig ellefu.
Þorvaldur hefur boðað nokkrar breytingar á KSÍ, hann ætlar sér að taka til í rekstri sambandsins og segist ætla að reyna að sætta mál sem hafa verið á milli KSÍ og ÍTF.
Þetta voru helstu punktar úr ræðu Þorvaldar:
Boðaði að taka reksturinn í gegn
KSÍ eigi að stuðla að bætingum í karla og kvennaknattspyrnu
Náin tengsl við hreyfinguna og meiri en oft hefur verið.
Reynsla, kunnátta, þekking, ábyrgð og óháður
Fegrar ekki hlutina og segir sannleikann
Boðar að ná meiri sátt í kringum KSÍ og ÍTF
Heiðarlegur og þolir ekki baktjaldamakk
Fjölga konum í þjálfun og dómgæslu
Koma dómaranámskeiðum inn í skólakerfið
Formaður sem þorir og nennir að vinna að hagsmunum félaganna alla daga vikunnar.
KSÍ á ekki að vera klíkuskapur, samband hreyfingarinnar.