Orðið á götunni er að innan Verslunarskóla Íslands hristi margir hausinn eftir að skólastjórinn ákvað að blanda sér með afgerandi hætti inn í kosningabaráttu knattspyrnuhreyfingarinnar. Kosið verður um formann KSÍ á næsta laugardag.
Orðið á götunni er að mörgum innan skólans finnist það furðulegt að Guðrún Inga Sívertsen, skólastjóri skólans ákveði að senda fram stuðningsyfirlýsingu og blanda sér með afgerandi hætti inn í þetta mál.
Guðrún lýsti yfir stuðningi við Vigni Má Þormóðsson en hann er að berjast við Guðna Bergsson og Þorvald Örlygsson um stöðuna. 147 þingfulltrúar á ársþingi KSÍ taka ákvörðun um hver þeirra fær starfið.
Guðrún Inga var lengi vel í stjórnunarstörfum hjá KSÍ og var varaformaður sambandsins þegar Guðni var áður formaður. Kaldar kveðjur á gamlan vinnufélaga að styðja Vigni með þessum hætti.
Guðrún veit vel hvað hún er að gera enda á hún mikið af stuðningsfólki í knattspyrnuhreyfingunni og yfirlýsing hennar gæti svo sannarlega sópað inn atkvæðum fyrir Vigni.
Guðrún Inga er í ábyrgðarstöðu innan skólans, þætti það eðlilegt ef Guðni Th. Jóhannesson myndi blanda sér í baráttuna eða Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri? Líklega ekki og mörgum þykir yfirlýsing skólastjórans því smekklaus.
Á kaffistofum og göngum Verslunarskólans er málið rætt og ekki eru allir sammála um þessa ákvörðun skólastjórans að stíga svona inn í opinbera baráttu. Er orðið á götunni að svona yfirlýsingar geri fátt annað en að ýta undir leðjuslag á síðustu metrum baráttunnar. Eitthvað sem knattspyrnuhreyfingin þarf ekki á að halda.
Ársþing KSÍ er iðulega áhugaverður viðburður, fáir þora að taka til máls en málin eru frekar rædd í reykfylltum bakherbergjum. Sum félög leggja mikið upp úr þinginu en önnur gera lítið annað en mæta, drekka kaffi og taka þátt í að kjósa formann og stjórnarfólk.