Mikel Arteta sagði á blaðamannafundi fyrir skömmu að það sé algjör þvættingur að hann sé að yfirgefa Arsenal í lok tímabils.
Spænska blaðið Sport sagði frá því í gær að stjórinn hefði sagt sínum nánustu frá því að hann væri að yfirgefa Arsenal eftir tímabilið. Í kjölfarið var hann orðaður við Barcelona.
„Þetta eru algjörar falsfréttir. Ég veit ekkert hvaðan þetta kemur,“ sagði Arteta ómyrkur í máli.
„Ég er mjög reiður yfir þessu. Ég trúði ekki mínum augum þegar ég sá þetta. Það eru engar heimildir fyrir þessu.“
Arteta tók við Arsenal í lok árs 2019 og hefur liðið tekið stórt skref upp á við undir hans stjórn.