Norrköping þvertekur fyrir að hafa átt í viðræðum við Víking um Arnar Gunnlaugsson, þjálfara liðsins.
Fyrr í dag var greint frá því á heimasíðu Íslands- og bikarmeistaranna að þeir hefðu hafnað tilboðum í Arnar og slitið viðræðum við Norrköping, en hann hafði verið sterklega orðaður við sænska félagið.
„Tilboð Norrköping var ekki nálægt því sem við teljum virði Arnars Gunnlaugssonar vera. Því ákvað félagið að afþakka frekari samningaviðræður og setja allan fókus á undirbúning fyrir næsta tímabil.
Arnar er afar fær þjálfari og mikilvægur okkur Víkingum og er ég afar spenntur fyrir áframhaldandi samstarfi með Arnari,“ segir Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi.
Sakarias Mårdh hjá Norrköping segir hins vegar í sænskum fjölmiðlum að menn þar á bæ kannist ekki við að hafa átt í viðræðum við Víking.