Eldgos hófst á Reykjanesskaga á tólfta tímanum í kvöld. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs segir í samtali við RÁS 2 að gosið sé hratt og atburðarásin í kvöld hafi verið hröð.
Þyrla landhelgisgæslu er á leiðinni í loftið til að vísindamenn geti fengið betri mynd af atburðum. Hvetur hann alla sem gætu verið enn í Grindavík að koma sér þaðan sem fyrst og fara Suðurstrandaveg. Enn á eftir að ná utan um hvert hraun er að renna, en fyrstu upplýsingar benda til þess að það renni í allar áttir frá sprungunni sem myndast hefur. Strókarnir eru mjög háir og sem stendur gæti hraun runnið til Grindavíkur eða að varnargörðunum við Svartsengi.
Víðir tekur fram aðstæður eru hættulegar og fólk ætti ekki að drífa sig á vettvang til að berja gosið augum.
„Þetta er ekki túristagos sem við erum að horfa á í augnablikinu“
Eftir atvikum, ef hraun rennur í átt til Grindavíkur, þá gæti það aðeins tekið örfáar klukkustundir að ná til Grindavíkur en ef hraunið rennur norðan við vatnaskilin þá ætti hraunið ekki að renna til Grindavíkur.
Enn á eftir að gera mat á hættu sökum gasmengunar og Víðir er ekki með staðfestingu á því að Bláa lónið sé tómt.