Samkvæmt enskum blöðum mun Sir Jim Ratcliffe ætla að setja peninga í leikmenn í janúar þegar hann hefur eignast 25 prósenta hlut í Manchester United.
Kaupin eru að ganga í gegn og segja ensk blöð að Ratcliffe vilji byrja á að setja aura sína í það að styrkja hópinn fyrir Erik ten Hag.
Er kantmaður sagður efstur á óskalista og segir einnig að félagið sé til í að selja Antony, Anthony Martial og Jadon Sancho.
Nánast er öruggt að Sancho fari en hinir tveir hafa ekki staðið undir væntingum og vill Ten Hag hrista upp í hlutunum.
Segir í fréttinni að Ten Hag vilji fá kantmann og hægri bakvörð, hann telur það vera stöður sem þarf að styrkja.
Búist er við að Ratcliffe gangi frá kaupunum á næstu dögum og þá gætu komið inn fjármunir fyrir stjórann.