Jón Rúnar Halldórsson, stjórnarmaður í ÍTF (Íslenskur toppfótbolti) hefur ásamt öðrum tengdum FH byggt um hybrid æfingavöll hjá félaginu. Um er að ræða blöndu af gervigrasi og hinu hefðbunda grasi.
Gervigrasinu er skotið ofan í jarðveginn og síðan er grasið lagt ofan á. Með þessu á að vera hægt að nota grasvelli yfir miklu lengra tímabil á Íslandi. Er þessi aðferð þekkt út um allan heim.
Hjá KSÍ er það til skoðunar að laga grasflötinn á Laugardalsvelli, aðilar innan KSÍ hafa skoðað gervigras, hybrid gras og venjulegt gras. Vilja margir fara hybrid leiðina sem hefur gefið sér vel þar sem kalt er í veðri.
„Við höfum gefið sambandinu, lagt fram til formannsins sem er að hætta. Við gáfum þeim tilboð um að gera þetta, byggt á því sem við höfum verið að gera,“ segir Jón Rúnar í hlaðvarpsþættinum Tveir á tvo.
Talið er að framkvæmdin á Laugardalsvelli myndi kosta í kringum 500 milljónir, lagður yrði hiti undir völlinn og síðan keyptur allur sá búnaður sem til þarf.
„Við viljum meina að það sé hægt að gera þetta, við hefðum getað gert þetta þannig að það detta ekki niður leikur. Að gera þetta á sama tíma í Kaplakrika og Laugardalsvöll, þá er hægt að spila minni leiki í Kaplakrika sem kallar á minni umgjörð. UEFA og FIFA þeir myndu taka þátt í því, auðvitað kæmi ríkið með eitthvað.“
Jón Rúnar telur svo að byggja þurfi nýjan þjóðarleikvang en ekki í Laugardalnum. „Innan einhvers tíma í því yrði gert plan um að byggja þjóðarleikvang og ég sé hann fyrir mér í Blikastaðalandi, ég er ekki búinn að tala við eigandann,“ segir Jón en um er að ræða svæði sem er á milli Grafarvogs og Mosfellsbæjar.