Gabriel Cavallin er nafn sem margir eru farnir að kannast við en hún er fyrrum kærasta stjörnunnar Antony sem spilar með Manchester United.
Antony er byrjaður að æfa með Man Utd á ný en hann var sendur í stutt bann eftir ásakanir Cavallin. Hann spilaði aftur gegn Galatasaray á þriðjudag en hafði fyrir það ekki tekið þátt síðan þann 3. september.
Cavallin ásakar Antony um að hafa ráðist á sig á hóteli í Manchester og talar um að hann hafi bæði kýlt hana sem og skallað.
Um er að ræða 22 ára gamla stúlku sem segir að Antony hafi ráðist á sig oftar en einu sinni – hún er ekki sátt með að félagið sé að leyfa leikmanninum að æfa á ný.
Enskir miðlar greina nú frá því að Cavallin sé á leið til Englands á ný á næstu dögum og ætli þar að ræða enn frekar við lögreglu.
Hún hefur verið í sambandi við lögregluna þar í landi í gegnum síma en Cavallin er búsett í Brasilíu en ætlar nú að reyna að fara með málið lengra.
Antony hefur sjálfur alltaf neitað sök í málinu en tvær aðrar konur hafa stigið fram og ásakað hann um ofbeldi.