Það vakti nokkra athygli er 4. flokkur kvenna hjá KF/Dalvík í knattspyrnu fékk ekki að taka þátt í úrslitakeppninni af þeirri ástæðu að liðið var skráð sem B-lið. DV greindi frá þessu í ágúst. Friðjón Árni Sigurvinsson, þjálfari liðsins, gagnrýndi þessar reglur og greindi svo frá málinu:
„Þannig er mál með vexti að ég er þjálfari 4.fl kvk hjá KF/Dalvík og við skráðum eitt lið í Íslandsmót í sumar. Liðið var skráð sem B-lið þar sem getubilið er mikið í liðinu og fjöldinn ekki mikill hjá okkur í 4. flokki kvenna. Einnig vildum að þær fengu verkefni við hæfi. Liðið kom svo öllum á óvart og er búið að vera frábært í sumar og vann sinn riðill á Íslandsmótinu. Við fáum svo þau skilaboð að vegna þess að við erum ekki með lið í A-liða keppni fær liðið ekki að taka þátt í úrslitakeppninni sem stelpurnar stefndu á í allt sumar. Það stendur vissulega í reglugerð hjá KSÍ að þetta sé ekki leyfilegt, þess má geta að ég vissi ekki af þessari reglu fyrr en í fyrradag, mer finnst hins vegar sú regla og reglugerð barn síns tíma þar sem þarna er verið að útiloka minni félög frá því að eiga séns á glæstum árangri.“
Friðjón telur að þessi regla verði til þess að stærri félög nái árangri en þau minni sitji eftir með sárt ennið: „Með þessu má ætla að það sé yfirlýst stefna að stærri félögin eigi ein að eiga möguleika á því að verða Íslandsmeistarar. Er eðlilegt að einungis lið frá Breiðablik, Stjörnunni/Álftanes, FH/ÍH, KA eða öðrum fjölmennum félögum geti hampað Íslandsmeistaratitlum? Og að fjöldi iðkenda hafi þar úrslitaáhrif? Er KSÍ virkilega endanlega orðið að höfuðborgarsamtökum sem skeytir lítið um félögin úti á landi sem eru að berjast í því að halda úti liðum í öllum flokkum af báðum kynjum og finnst eðlilegast að félögin sem eru með flesta iðkendur standi framar öðrum? Er það í anda KSÍ að fámennum liðum eins og KF/Dalvík og fleirum sé gert það ómögulegt að sigra og ná eftirminnilegum árangri og uppskera eftir erfiði vinnu sinnar?.“
Friðjón segir að reglan geri lítið úr þeim metnaði sem er í knattspyrnu kvenna:
„Þessi stefna og reglugerð er sem rýtingur í brjóst okkar stelpna og gerir lítið úr þeirri metnaðarfullu uppbyggingu sem á sér nú stað í kvennaboltanum hér út með Eyjafirði. KSÍ þarf að gera betur svo fólk í minni byggðum á landsbyggðinni trúi því að allir eigi möguleika á því að sigra. Það er nógu erfitt að halda stelpum á þessum aldri inn í fótbolta í þessum litlu sveitarfélögum hvað þá þegar þær fá svona skell að öll vinnan og markmiðum sé sópað út af borðinu út af úreltri reglugerð hjá KSÍ. Ég velti fyrir mér til hvers við séum þá yfir höfuð að taka þátt í Íslandsmótinu ef við eigum svo ekki möguleika á árangri? Það gjaldfellir líka algjörlega mótið ef lið sem endar í 4.-8. sæti í riðli, fær sæti í úrslitakeppni bara af því að það er A-lið frá þeim í keppni. Að sama skapi get ég ekki ímyndað mér að það sé einhver vilji frá þeim félögum til að taka þátt í svoleiðis leik, að leika í úrslitakeppni án þess að hafa náð árangri. Það er ekki í anda keppnisíþrótta.“
Nú er komið í ljós að Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, var ekki búin að gleyma stelpunum í KF/Dalvík sem stóðu sig svo vel en máttu þola svo mikil vonbrigði. Vanda getur ekki breytt því að reglurnar eru eins og þær eru en hins vegar bauð hún stelpunum í heimsókn til KSÍ og á landsleik Íslands og Wales á föstudagskvöld. Kolbrún Einarsdóttir greinir frá þessu á Facebook og segir að þetta hafi verið gríðarlega skemmtilegur dagur fyrir stelpurnar:
„Fögnum því sem vel er gert!
Eftir mikla umfjöllun og samræður eftir að í ljós kom að 4.flokks stelpurnar okkar myndu ekki fá að spila til úrslita, vildi Vanda formaður KSÍ fá að gera eitthvað fyrir þær.
Úr varð að í gær var þeim boðið í heimsókn til KSÍ. Þar var tekið vel á móti þeim af öllu starfsfólki sem þær hittu. Þær fengu skoðunarferð um Laugardalsvöll, á keppnisdegi sem var mjög skemmtilegt. Fengu að fá að sjá hvernig undirbúningur og utanumhald er fyrir keppnisleiki, þær fengu m.a. að kíkja í klefana þar sem búið var að setja upp keppnisbúninga, kíktu út á völlinn og sátu fyrir svörum í blaðamannaherberginu þar sem Elmar blaðamaður lét spurningar dynja á þeim. Þeim var síðan boðið upp á pizzuveislu og fengu skemmtilega kynningu á starfsemi KSÍ.
Síðast en ekki síst fengu þær miða á landsleik kvennaliðsins sem var seinni partinn þar sem Ísland vann 1-0 sigur á Wales. Um helmingur stelpnanna að fara á sinn fyrsta landsleik og skemmtu þær sér allar stórvel og hvöttu af kappi.
Eftir leik hópuðust þær neðst í stúkuna til að fá eiginhandaráritanir hjá landsliðsstelpunum sem gáfu sér góðan tíma í að sinna spenntum áhangendum.
Þetta var gríðarlega skemmtilegur dagur og mikil upplifun. Takk Vanda og KSÍ fyrir að gera þetta fyrir stelpurnar okkar.“