Það er enginn smá heiður fyrir unga knattspyrnumenn að fá verðlaunin árlegu ‘Gulldrengurinn’ þar sem efnilegustu leikmenn heims koma til greina.
Gulldrengurinn 2022 var Gavi, leikmaður Barcelona, en líklegastur til afreka á þessu ári er Jude Bellingham, stjarna Real Madrid.
Leikmenn eins Kylian Mbappe, Lionel Messi, Erling Haaland og Wayne Rooney hafa hlotið þessa viðurkenningu í gegnum tíðina.
The Sun tók saman skemmtilegan lista yfir alla þá Gulldrengi sem hafa unnið verðlaunin frá árinu 2003.
2003 – Rafael van der Vaart
Van der Vaart var gríðarlegt efni á sínum tíma er hann lék með Ajax og átti síðar flottan feril með liðum eins og Real Madrid og Tottenham.
2004 – Wayne Rooney
Rooney er af mörgum talinn einn besti ef ekki besti sóknarmaður í sögu Englands. Spilaði mest megnis með Manchester United en einnig Everton og DC United.
2005 – Lionel Messi
Það þarf ekki að skrifa mörg orð um Messi sem er að margra mati besti leikmaður sögunnar. Er enn að og leikur með Inter Miami í Bandaríkjunum.
2006 – Cesc Fabregas
Fabregas er hættur í dag en hann átti frábæran feril og lék með liðum eins og Arsenal, Barcelona og Chelsea.
2007 – Sergio Aguero
Var lengi einn besti framherji ensku úrvalsdeildarinnar er hann spilaði með Manchester City. Aguero neyddist til að hætta árið 2021 vegna hjartavandamála.
2008 – Anderson
Leikmaður sem margir bjuggust við að yrði einn besti miðjumaður heims eftir að hafa gengið í raðir Manchester United. Brassinn spilaði fjölmarga leiki í Manchester en náði aldrei hæstu hæðum og hætti árið 2020.
2009 – Alexandre Pato
Alveg magnaður er hann lék með AC Milan á Ítalíu og vann þessi verðlaun 20 ára gamall. Meiðsli settu stórt strik í reikning Pato sem hefur spilað í Kína og í Bandaríkjunum undanfarin ár.
2010 – Mario Balotelli
Balotelli er einstakur karakter og vann þessi verðlaun fyrir 13 árum. Hann lék fyrir lið eins og Inter Milan, AC Milan, Manchester City og Liverpool en er í dag í Tyrklandi.
2011 – Mario Götze
Þekktastur fyrir það að tryggja heimsmeistaratitilinn árið 2014 er hann gerði sigurmark Þýskalands gegn Argentínu í framlengingu. Átti nokkuð góðan feril en leikur í dag með Eintracht Frankfurt.
2012 – Isco
Leikmaður sem margir vildu meira frá. Isco lék lengi með Real Madrid og var þar í níu ár en er í dag á mála hjá Real Betis.
2013 – Paul Pogba
Afskaplega umdeildur leikmaður en átti frábæra dvöl hjá Juentus á sínum tíma. Gekk svo aftur í raðir Manchester United þar sem ferillinn fór aldrei almennilega á flug.
2015 – Anthony Martial
Það er ekki hægt að segja að Martial sé á meðal vinsælustu leikmanna Manchester United í dag en hann er enn á mála hjá félaginu. Hefur aldrei náð hæstu hæðum eftir þó frábæra byrjun hjá félaginu.
2016 – Renato Sanches
Sanches hefur átt mjög undarlegan feril en hefur þó afrekað ýmislegt. Sanches vann til að mynda EM með Portúgal árið 2016 og var keyptur til Bayern Munchen þar sem tækifærin voru af skornum skammti. Ferill hans komst aftur á flug hjá Lille í Frakklandi en svo gekk miðjumaðurinn í raðir Paris Saint-Germain og á ekki framtíð fyrir sér þar.
2017 – Kylian Mbappe
Af mörgum talinn besti leikmaður heims í dag og hefur átt stórkostlegan feril. Mbappe leikur með Paris Saint-Germain og er lykilmaður í franska landsliðinu.
2018 – Matthijs de Ligt
Vakti fyrst athygli með Ajax í Hollandi og var keyptur til Juventus í kjölfarið. Hollendingurinn stóðst ekki væntingar á Ítalíu og leikur í dag hjá Bayern Munchen en er þar varamaður.
2019 – Joao Felix
Undrabarnið frá Portúgal sem var fenginn til Atletico Madrid fyrir 108 milljónir punda árið 2019. Ferill Felix hefur aldrei komist almennilega á flug en hann leikur í dag fyrir Barcelona á láni eftir stutta dvöl hjá Chelsea einnig á láni síðasta vetur.
2020 – Erling Haaland
Markavél sem er talinn einn besti leikmaður heims í dag. Bætti markametið í ensku úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili í Manchester.
2021 – Pedri
Gríðarlegt efni og framtíðarmaður í spænska landsliðinu til margra ára. Pedri er enn ungur en á samt sem áður að baki 111 leiki fyrir Börsunga.
2022 – Gavi
Annað undrabarn Barcelona sem gerði nýjan samning við félagið í júní á þessu ári. Miðjumaðurinn er með kaupákvæði í sínum samningi upp á einn milljarð evra.