Eins og flestir vita er Arnar í dag þjálfari karlaliðs Víkings og hefur náð frábærum árangri. Liðið er langefst í Bestu deildinni og er komið í úrslitaleik bikarsins enn eitt árið.
Arnar átti einnig farsælan atvinnumannaferil sem leikmaður á yngri árum. Hann lék til að mynda með Leicester og einn af þjálfurum hans þar var Martin O’Neill.
„Við vorum svo hræddir við hann. Þá lærði maður líka hvernig maður vill ekki vera í samskiptum við leikmenn. Þessi fear factor, hann var yfirþyrmandi á æfingasvæðinu,“ segir Arnar um O’Neill.
Þetta hjálpaði Arnari að sjá hvernig hann vildi ekki láta við leikmenn sem þjálfari seinna meir.
„Við, fullorðnir karlmenn, vorum skíthræddir við einhvern framkvæmdastjóra. Mig langaði ekki að vera þannig.
Ég man þegar ég var meiddur, þá var erfitt að mæta honum. Nú passa ég alltaf að spyrja leikmenn hvernig þeir hafi það. En það var allt rosa þungt. Hann var mjög pirraður, horfði aldrei á mann og ég skammaðist mín þegar ég mætti honum á göngunum. Það er ekki góð tilfinning sem leikmaður.“
Auk Leicester stýrði O’Neill liðum á borð við Aston Villa, Sunderland og Celtic, auk írska landsliðsins.