Fjölmiðlar á borð við CNN, Daily Mail, The Sun og BBC eru á meðal þeirra sem fjallað hafa um lát knattspyrnukonunnar Violetu Mitul, sem lést í hörmulegu slysi á Vopnafirði á dögunum.
Violeta var frá Moldovu, hún var 26 ára gömul, og lék með Einherja á Vopnafirði.
Einherji sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna málsins:
„Það er með djúpri sorg í hjarta sem við tilkynnum um sviplegt fráfall leikmanns okkar, liðsfélaga og vinkonu, Violetu Mitul sem lést af slysförum aðfaranótt 4. september, aðeins 26 ára gömul. Samfélagið á Vopnafirði er harmi slegið.
Violeta, sem fæddist 3. apríl 1997 í Moldóvu, gekk til liðs við Einherja í vor og gegndi lykilhlutverki í liði meistaraflokks kvenna í sumar. Violeta var góðhjörtuð, dugleg og brosmild. Hún var traustur liðsmaður og fyrirmyndar fótboltakona. Andlát hennar er okkur öllum mikið áfall og skarðið sem hún skilur eftir sig stórt. Hugur okkar er hjá liðsfélögum hennar og þjálfurum sem syrgja traustan Einherja.
Fjölskyldu Violetu, þeim Alexandru, Mariu, Veaceslav og Juliu sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Á svo hörmulegri stundu eru engin orð eða gjörðir sem græða sárið sem missirinn skilur eftir sig en við munum gera það sem í okkar valdi stendur til að létta undir með fjölskyldu og vinum sem eiga um sárt að binda á þessum sorgartímum.
Söfnunarreikningur fyrir fjölskyldu Violetu hefur verið stofnaður í nafni félagsins:
610678-0259
0178-05-000594
Ungmennafélagið Einherji“
Í frétt CNN af málinu er vitnað til tilkynningar UEFA og segir: „Hinn 26 ára gamli varnarmaður lenti í sorglegu slysi í fjallgöngu með liðsfélögum.“ Segir einnig að Violeta hafi verið ein af helstu leikmönnum Moldovu í kvennaknattspyrnu, hún hafi leikið 40 landsleiki fyrir þjóð sína og spilað með mörgum félögum víðsvegar í Evrópu.
Einnig er vitnað til ofanefndrar tilkynningar Einherja um málið, þar sem meðal annars kemur fram að samfélagið á Vopnafirði sé harmi slegið vegna atburðarins.