Goðsögnin Paul Scholes fékk afar erfiða spurningu í þættinum FIVE sem er í umsjón Rio Ferdinand, fyrrum liðsfélaga hans hjá Manchester United.
Scholes var þar spurður að því hvort hann hefði verið betri leikmaður á sínum tíma en Steven Gerrard, goðsögn Liverpool.
Scholes neitaði að svara þeirri spurningu en benti á að Gerrard hafi gert hluti sem hann sjálfur hefði aldrei getað gert á sínum ferli.
Scholes lék með stórkostlegum leikmönnum hjá Man Utd á sínum ferli en Gerrard þurfti oft að sætta sig við leikmenn í töluvert lægri gæðaflokki.
,,Ég get ekki svarað því. Gerrard var frábær leikmaður, við vorum öðruvísi, allt öðruvísi. Hann var íþróttamaður,“ sagði Scholes.
,,Hann er meiri sigurvegari en ég en lék í liði þar sem hann þurfti að vera það. Ég var meira hluti af liðinu, hann var meira eins og einstaklingur í liði.“
,,Ég hefði aldrei getað gert það sem hann gerði hjá Liverpool, hvort hann gæti gert það sem ég gat hjá Man Utd veit ég ekki en af hverju ekki?“