Harry Kane, landsliðsfyrirliði Englands, hefur tjáð sig um vin sinn Dele Alli sem ræddi opinberlega um eigin vandamál í viðtali í sumar.
Viðtalið vakti gríðarlega athygli en Dele talaði á meðal annars um það að hann hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi aðeins sex ára gamall.
Dele hefur átt erfitt uppdráttar á knattspyrnuvellinum í langan tíma en hann er leikmaður Everton í dag en lék áður með Tottenham eins og Kane.
Þeir tveir eru góðvinir en Kane hafði ekki hugmynd um hversu mikið vinur sinn þurfti að þola í æsku og á unglingsárunum.
,,Dele var gríðarlega hugrakkur í viðtalinu sem hann gaf. Við höfum þekkst í dágóðan tíma en ég var svo sannarlega ekki meðvitaður um hversu erfitt þetta var fyrir hann,“ sagði Kane.
,,Ég sendi honum skilaboð um leið og benti á hversu mörgum hann væri að hjálpa með því að stíga fram opinberlega.“
,,Ég hitti Dele í sumar en það var fyrir viðtalið, hann virtist í góðu standi. Ég veit að hann er að leggja sig hart fram til að komast í form. Ég get ekki beðið eftir því að sjá hann aftur á vellinum. Hann er klárlega á betri stað í dag.“