Santi Cazorla, fyrrum leikmaður Arsenal og spænska landsliðsins, hefur skrifað undir samning við Real Oviedo í gamla heimabæ sínum út þetta tímabil.
Hinn 38 ára gamli Cazorla er alinn upp hjá Oviedo, sem spilar í spænsku B-deildinni.
Cazorla ætlar aðeins að þiggja lágmarkslaun hjá Oviedo auk þess sem 10% af treyjusölu með nafni hans fer í unglingastarf félagsins þar sem hann gaf eftir allan ímyndarrétt.
Miðjumaðurinn hefur verið á mála hjá Al Sadd í Katar undanfarin þrjú ár en er auðvitað þekktastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal.
Cazorla vann FA bikarinn í tvígang á tíma sínum í Norður-London.