fbpx
Laugardagur 30.ágúst 2025
433Sport

Helgi gerir upp tímann í Grindavík: Upplifði vonleysi í síðasta leik sem leiddi til ákvörðunarinnar – „Einhver varð að taka ábyrgð“

Helgi Fannar Sigurðsson
Miðvikudaginn 2. ágúst 2023 11:08

Mynd: Skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Knattspyrnuþjálfarinn Helgi Sigurðsson horfir með hlýju á tíma sinn við stjórnvölinn hjá karlaliði Grindavíkur. Hann sagði starfi sínu lausu á dögunum og gerði það með hag félagsins fyrir brjósti. Helgi hefur fulla trú á að Grindavík geti snúið döpru gengi sínu við.

Grindavík fór afar vel af stað í Lengjudeild karla í vor en síðan hefur heldur betur hallað undan fæti. Liðið hefur nú ekki unnið í sjö leikjum í röð og er í tíunda sæti deildarinnar, 4 stigum fyrir ofan fallsvæðið.

„Við byrjum mótið hrikalega vel, erum með 10 stig eftir fjóra leiki, komnir langt í bikar þar sem við unnum Aftureldingu og Val og töpum svo fyrir KA í jöfnum leik. Allt lítur vel út. Svo byrja meiðsli að hrannast upp. Dagur Austmann meiðist, Óskar Örn meiðist, Guðjón Pétur fær sitt tveggja leikja bann og einhvern veginn dettur dampurinn úr þessu og úr verður hringekja sem erfitt var að stoppa,“ segir Helgi í samtali við 433.is.

„Spírallinn fór niður á við, sjálfstraust manna minnkaði. Maður reyndi allt til að breyta því, nota þau vopn og reynslu sem maður hefur sem leikmaður og þjálfari, en það sem var þess valdandi að ég ákvað að taka þessa ákvörðun var visst vonleysi sem mér fannst ég sjá í leik liðsins gegn Njarðvík í síðasta leik. Það varð eitthvað að láta undan að láta, einhver varð að taka ábyrgð.“

Óskar Örn kom fyrir tímabil en hefur verið mikið frá.

Frábært samstarf

Sem fyrr segir sagði Helgi starfi sínu lausu á dögunum og er Brynjar Björn Gunnarsson nú tekinn við. Hann vonast til að ákvörðunin verði til þess að Grindavík snúi gengi sínu við, en þrátt fyrir erfiða stöðu eru aðeins 4 stig upp í umspilssæti.

„Það er þannig í þessum bransa að þjálfaranum er kennt um. Í þessu tilviki var ég bara harður við sjálfan mig og spurði sjálfan mig hvort ég gæti gert eitthvað til að bjarga þessu. Ég taldi kannski besta kostinn að fá annað andlit inn, aðra rödd inn í klefann til að reyna að ýta við strákunum. Mér þykir vænt um strákana og þetta hefur verið frábært samstarf við stjórn Grindavíkur. Maður fann að það leið öllum illa þannig ég varð að skera á þennan hnút.

Ég heyrði í Hauki formanni og við tókum fund. Við áttum mjög gott spjall eins og alltaf og ég hef haft 100% stuðning frá stjórninni allan tímann. Maður þurfti að kyngja stoltinu og hafa hag félagsins að leiðarljósi. Ég taldi bara best að ný rödd kæmi inn í klefann og strákarnir færu þá aftur í gang. Það er mín heitasta von.“

Haukur Guðberg Einarsson, formaður Grindavíkur, talaði afar vel um tímann með Helga í viðtali við 433.is í vikunni. Helgi hefur svipaða sögu að segja þó erfitt hafi verið að horfa upp á gengið þegar liðið hefur á sumarið.

„Þetta var frábær tími. Auðvitað hefur þetta tekið á. Ekki bara fyrir mig heldur líka stjórnarmenn, leikmenn og alla, þegar hlutirnir eru ekki að ganga eins og lagt er upp með. Það má svo spyrja sig hvort það hafi verið of bratt að ætla að koma liðinu upp á fyrsta ári með tólf nýja leikmenn og nýjan þjálfara.

Þetta er hundfúlt. Þetta er frábær klúbbur, mér leið hrikalega vel þarna, stjórnin var til fyrirmyndar í einu og öllu, leikmennirnir frábærir. Ég er enn að tala við strákana og stjórnina þó þetta sé búið. Þetta hefur verið mjög gott en stundum verður einhver að taka ábyrgð og ég vonast til að með þessum gjörðum muni liðið rífa sig í gang. Nú er þetta undir strákunum komið og nýjum þjálfara að koma liðinu á betri braut því þetta var að stefna í ógöngur.“

Brynjar Björn er tekinn við.

Hefur mikla trú á liðinu

Sem fyrr segir er stutt í umspilið fyrir Grindvíkinga. Helgi var spurður út í hvort hann hafi trú á að liðið nái þangað inn. Svarið var einfalt.

„Já. Þetta er sama lið og var að vinna Val með yfirburðum og byrjaði mótið mjög vel. Þessir leikmenn eru ekki orðnir lélegri fótboltamenn á sex vikum, ekki frekar en að ég er orðinn lélegri þjálfari eða stjórnin lélegri stjórnarmenn. Þetta er bara spírall sem kemur upp alls staðar í heiminum. Það er erfitt að stoppa svona þegar dampurinn dettur úr þessu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég lendi í því að ná ekki að snúa við hlutunum og mér finnst það hundleiðnlegt og erfitt.“

Helgi kvaddi leikmenn Grindavíkur í gær.

„Ég var að kveðja leikmenn í gær og var þar í klukkutíma. Ég heyrði í Brynjari líka. Þetta er eins góður viðskilnaður og mögulegt er. Eins og formaðurinn orðaði það, við erum vinir til lífstíðar.

Ég held svo mikið með liðinu að ég vonast eftir því að þessi breyting mín verði til þess að snúa genginu við. Þá verð ég glaður maður. Ég hugsa bara þannig að ég er 100% í þeim verkefnum sem ég er í. Það er enginn leikmaður eða þjálfari yfir félagið hafinn. Maður verður alltaf að vinna í þeirri trú að maður sé að bæta félagið og liðið. Ef það tekst ekki verður maður að hugsa sinn gang. Ég hef gert það og komst að þessari niðurstöðu. Svo verðum vð að sjá hvort hún hafi verið rétt en það er mín einlæga trú að Grindavík snúi við genginu.“

En hvað tekur við hjá Helga?

„Núna er maður bara á hliðarlínunni, ég nýti tímann með fjölskyldunni og reyni að gera eitthvað skemmtilegt um Verslunarmannahelgina. Ég reyni að kúpla mig aðeins frá þessu en það er frábært að vera í fótboltanum og ég skorast aldrei undan ábyrgð og ég held ég hafi heldur betur sýnt ábyrgð í þessu,“ segir Helgi Sigurðsson að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Mikael varpar sprengju – Allt var klappað og klárt en eitt símtal í KSÍ breytti öllu

Mikael varpar sprengju – Allt var klappað og klárt en eitt símtal í KSÍ breytti öllu
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Sögusagnir um að Newcastle opni veskið enn frekar – Rosalegt tilboð og fjórföldun á launum

Sögusagnir um að Newcastle opni veskið enn frekar – Rosalegt tilboð og fjórföldun á launum
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Voru með flugvél klára en hann mætti ekki – Skrifar nú undir hjá Chelsea

Voru með flugvél klára en hann mætti ekki – Skrifar nú undir hjá Chelsea
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

West Ham afþakkaði það að fá Andre Onana

West Ham afþakkaði það að fá Andre Onana
433Sport
Í gær

Tíðindi frá Tyrklandi – Búið að reka Mourinho

Tíðindi frá Tyrklandi – Búið að reka Mourinho
433Sport
Í gær

Pattstaða í máli Donnarumma sem heldur í vonina

Pattstaða í máli Donnarumma sem heldur í vonina