Arnar Gunnlaugsson býst ekki við meiri hræringum á leikmannahópi Víkings í félagaskiptaglugganum en útilokar þó ekki að leikmenn í minna hlutverki horfi sér til hreyfings.
Aron Elís Þrándarson gekk í raðir Víkings fyrr í mánuðinum en ekki er búist við fleiri nýjum andlitum í Víkina.
„Hópurinn minn er mjög sterkur og ég held við þurfum enga fleiri leikmenn,“ sagði Arnar við 433.is í dag.
„Vonandi höldum við öllum okkar leikmönnum. En ég skil það mjög vel ef sumir eru pirraðir og vilja fleiri mínútur. Við munum hlusta á þær óskir.“
Arnar var einnig spurður út í Loga Tómasson sem var á dögunum orðaður við atvinnumennsku. Hann segir að Logi verði pottþétt áfram hjá Víkingi út tímabilið hið minnsta.
Ítarlega var rætt við Arnar og má nálgast viðtalið í spilaranum.