Jordan Henderson er farinn frá Liverpool til Al Ettifaq í Sádi-Arabíu. Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að hann og leikmenn muni sakna fyrirliðans mikið.
Eftir 12 ár hjá Liverpool og næstum 500 leiki er Henderson farinn í peningana í Sádi-Arabíu. Laun hans hækka úr 200 þúsund pundum á viku í 700 þúsund pund.
Hann skrifar undir þriggja ára samning og greiðir Al Ettifaq Liverpool 12 milljónir punda.
„Svona er fótboltinn og lífið. Svona hlutir gerast,“ segir Klopp.
„Þegar við komum aftur til Liverpool á mánudag beið hann eftir okkur til að kveðja liðið og starfsfólkið almennilega. Það var mjög vel gert.“
Klopp talar afar vel um Henderson.
„Ég veit að þetta var mjög erfið ákvörðun fyrir Hendo. Þetta er leiðinlegt og mjög skrýtið þar sem hann er eini fyrirliðinn sem ég hef haft hjá mér hér. En þetta er líka spennandi fyrir hann.
Við munum sakna hans, án nokkurs vafa. Bæði sem leikmanns og einstaklings. En eins og ég segi, svona er fótboltinn.“