Fyrrum landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson hefur átt frábæran feril með félagsliðum á Ítalíu. Hann var þó eitt sinn á mála hjá Tottenham. Í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark sagði hann góða sögu af skiptunum þangað.
Emil var aðeins tvítugur og á mála hjá FH þegar hann fór til Tottenham. Hann hafði hins vegar skömmu áður farið á reynslu til hollenska stórliðsins Feyenoord sem vildi í kjölfarið fá hann til liðs við sig.
„Ég fer heim með samningstilboð frá Feyenoord en þá vill Tottenham fá mig á reynslu,“ segir Emil í þættinum.
Emil segir að Feyenoord hafi haft mikla sýn fyrir sig en höfðu engan húmor fyrir því að hann færi á reynslu annað eftir að hafa fengið samningstilboðið þaðan.
„Ég er bara á leiðinni upp á flugvöll og þá hringir yfirmaður íþróttamála hjá Feyenoord í mig og spyr hvort ég sé að fara á reynslu til Tottenham. Ég var mjög lítill í mér og sagði já. Hann segir: „Ef þú ferð til Tottenham á reynslu er þetta af borðinu. Þá viljum við ekki fá þig.“ Hann hringdi bara beint í símann minn. Það var mjög óþægilegt, ég 19-20 ára.
Ég man ekki hvernig samtalið endaði en ég fer allavega til Tottenham. Þeir ákváðu líka að bjóða mér samning. Það var mjög skemmtilegur tími en mögulega eftir á að hyggja ekki rétta skrefið. Ég var búinn að vera þarna í stuttan tíma þegar ég áttaði mig á því að það væri allt of stórt stökk að fara úr FH í Tottenham. Ég var bara orðinn 39. maður þarna,“ segir Emil.