Declan Rice, nýr leikmaður Arsenal, segist sjá fótbolta á annan hátt eftir að hann fór að starfa með Mikel Arteta.
Miðjurinn varð fyrr í sumar dýrasti leikmaður í sögu Bretlands þegar Arsenal keypti hann á 105 milljónir punda frá West Ham. Hann hefur verið fyrirliði Hamranna undanfarin ár og staðið sig frábærlega.
Nú er Rice staddur með Arsenal í Bandaríkjunum á undirbúningstímabilinu og talar hann vel um Arteta.
„Þetta er klikkað. Ég sé fótboltann nú þegar á allt annan hátt. Þú heldur að þú þekkir fótbolta þegar þú elst upp og ert að spila en þegar þú hittir stjóra eins og Mikel áttar þú þig á að þú kannt í raun ekki neitt.
Ég spilaði allt annað hlutverk hjá West Ham en hér svo það mun taka tíma að venjast. Mig langar til að læra og bæta mig.“