Nýtt tilboð Liverpool í Romeo Lavia hljóðar upp á alls 45 milljónir punda. Fabrizio Romano segir frá.
Lavia, sem er aðeins 19 ára gamall, heillaði með Southampton á síðustu leiktíð en liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor.
Miðjumaðurinn hefur í kjölfarið verið sterklega orðaður við fjölda stórliða.
Liverpool er hins vegar efst í huga hans og vill leikmaðurinn halda þangað.
Liverpool lagði fram fyrsta tilboð í gær upp á 37 milljónir punda en því var hafnað af Southampton sem vill fá um 50 milljónir punda fyrir leikmanninn.
Nýtt tilboð Liverpool hljóðar upp á 42,5 milljónir punda með möguleika á 2,5 milljónum punda síðar meir. Líklegt þykir að félögin muni ná saman.
Liverpool horfir einnig til þess að Chelsea hefur áhuga á Lavia og vilja því sækja hann sem fyrst.