Ange Postecoglou stjóri Tottenham segir ekkert nýtt að frétta af framtíð Harry Kane.
Kane á aðeins ár eftir af samningi sínum við Tottenham og hefur hingað til ekki viljað framlengja.
Fyrr í sumar var enski framherjinn orðaður við Manhcester United en nú virðist Bayern Munchen líklegri áfangastaður. Tottenham hefur hafnað tveimur tilboðum þýska risans í Kane.
Stjórnarformaðurinn Daniel Levy er grjótharður og vill ekki selja Kane á minna en 100 milljónir punda. Ólíklegt er að nokkurt félag gangi að þeim verðmiða. Í gær komu hins vegar fram fréttir þess efnis að eigandinn Joe Lewis vildi selja Kane í sumar í stað þess að missa hann frítt næsta sumar.
„Það eru engar nýjar fréttir af Harry Kane. Það hefur ekkert breyst frá því fyrir nokkrum dögum,“ sagði Postecoglou er hann var spurður út í stöðuna.
Talið er að Kane sé með tilboð á borðinu frá Tottenham sem myndi færa honum 400 þúsund pund á viku fyrir að vera áfram.