Fyrr í vikunni birtust athyglisverðar myndir af Lionel Messi, leikmanni Inter Miami, en hann er nýlega lentur í borginni.
Messi er einn allra besti fótboltamaður sögunnar en myndir af honum sáust í matvörubúð í Miami spjallandi við aðdáendur félagsins sem fengu einnig myndir af sér með stjörnunni.
Alexi Lalas, fyrrum landsliðsmaður Bandaríkjanna, segir að Miami hafi platað alla og að um enga tilviljun hafi verið að ræða að Messi hafi verið réttur maður á réttum stað.
Lalas bendir á að matvörubúðin Publix sé einn af styrktaraðilum Miami og að félagið hafi vitað nákvæmlega hvað átti sér stað.
Lalas segir einnig að Messi hafi verið skipað að láta sjá sig í versluninni með körfu fulla af mat og þá voru teknar myndir af honum með ‘aðdáendum’ sem gætu hafa fengið borgað frá bandaríska félaginu.
Messi er eitt stærsta nafnið í boltanum en hvort Lalas hafi rétt fyrir sér er erfitt að staðfesta.