Lionel Messi er nú þegar orðinn gríðarlega vinsæll á meðal leikmanna Inter Miami en hann gekk í raðir liðsins nýlega.
Messi er byrjaður að æfa með sínum nýju félögum og var kynntur sem leikmaður liðsins er stór athöfn átti sér stað í Fort Lauderdale í vikunni.
Það var fullt hús þar til að sjá Messi kynntan til leiks en hann er einn besti ef ekki besti fótboltamaður sögunnar.
Liðsfélagi Messi, Leonardo Campana, fékk ekki nógu marga miða á athöfnina og ákvað að spyrja í WhatsApp hóp Miami hvort einhver gæti mögulega reddað honum.
Það var enginn annar en Messi sem kom þá til bjargar en frá þessu greinir DeAndre Yedlin sem er einnig leikmaður liðsins.
,,Þessi stóri viðburður sem var haldinn á sunnudaginn, Campana var að leita að fleiri miðum og spurði hvort einhver gæti hjálpað,“ sagði Yedlin.
,,Svo allt í einu, ég vissi ekki einu sinni að Messi væri hluti af hópnum ennþá. Hann var ekki lengi að svara og sagði: ‘Hversu marga miða þarftu?’ Um leið!“
,,Þeir hafa kannski þekkst í tvo daga eða þrjá. Þetta er frábært dæmi um hvernig manneskja hann er.“