Ísak Bergmann Jóhannesson landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður FCK í Kaupmannahöfn horfði á einn sinn besta vin sinn yfirgefa sig í gær og ganga í raðir Lille í Frakklandi.
Franska félagið keypti Hákon Arnar Haraldsson í gær á 2,2 milljarða en hann var leikmaður FCK líkt og Ísak. Þeir félagar hafa þekkst frá unga aldri enda báðir uppaldir Skagamenn.
Hákon var algjör lykilmaður á síðustu leiktíð en Ísak Bergmann var meira á bekknum og gæti farið frá FCK í sumar.
„Gangi þér vel elsku vinur. Þetta ævintýri sem við höfum fengið að upplifa saman hefur verið ótrúlegt. Tveir bestu vinir frá skaganum að spila saman í stærsta klúbb norðurlandana,“ skrifar Ísak í fallegri kveðju á Instagram.
Þeir félagar hófu að spila saman sem ungir drengir á Akranesi. „Vegferðin að spila saman á norðurálsmótinu í að spila saman í meistaradeildinni er eitthvað sem við gátum bara dreymt um. Að vinna deildina í fyrra og tvennuna í ár var ógleymanlegt.“
Þó líf atvinnumannsins sé draumur margra er það oft erfitt og Ísak kemur inn á það. „Allar erfiðu stundirnar sem við höfum fengið að tækla saman og hjálpa hvor öðrum í eru svo dýrmætar. Þú munt pakka þessu saman. Love you bro.“