Eins furðulega og það kann að hljóma þá voru bæði Manchester United og Chelsea að skoða það að semja við Willian í sumar.
Frá þessu greinir ESPN í Brasilíu en Willian krotaði undir nýjan samning við Fulham í gær.
Brassinn átti mjög gott tímabil með Fulham en hann skrifaði undir samning við félagið í september á síðasta ári.
Samningurinn var aðeins út tímabilið og voru önnur lið að skoða þann möguleika á að semja við vængmanninn.
Willian gerði garðinn frægan sem leikmaður Chelsea í mörg ár og vildi félagið víst semja aftur við kappann sem og Man Utd.
Willian ákvað þó að skrifa undir framlengingu við Fulham en hann er nú bundinn út næsta tímabil.
Man Utd og Chelsea höfðu það í huga að nota Willian sem varaskeifu fyrir komandi tímabil og leist þessum 34 ára gamla leikmanni ekki nógu vel á það.