Manchester United hefur fengið gríðarlega gagnrýni fyrir að rukka aðdáendur sína um pening til að taka mynd af sér með deildabikarnum sem vannst á síðustu leiktíð.
Stuðningsmenn Man Utd þurfa að borga 36 pund til að fá aðgang inn á Old Trafford og svo önnur 35 pund til að fá fjórar sjálfsmyndir með bikarnum.
Grannarnir í Manchester City eru taldir vera til fyrirmyndar á móti en aðdáendur liðsins geta fengið mynd af sér með ‘þrennunni’ án gjalds.
Man City vann ensku úrvalsdeildina, Meistaradeildina og enska bikarinn og eru bikararnir allir komnir í safn liðsins á Etihad vellinum.
Það er töluvert meira vesen fyrir stuðningsmenn Man Utd að fá mynd af sér með þeim eina bikar sem liðið vann á síðustu leiktíð.
Man Utd neitaði að tjá sig mikið um málið en bendir á að atvinnumenn sjái um að taka myndirnar af aðdáendum með bikarinn – annað en hjá grönnunum í City.