Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari var þokkalega brattur þrátt fyrir tap Íslands gegn Finnum í vináttulandsleik í kvöld.
Leiknum lauk með 1-2 sigri Finna.
„Þetta var ekkert okkar besti leikur. Við sköpuðum okkur töluvert af færum í fyrri hálfleik sem við hefðum viljað nýta. Finnar héldu boltanum betur í fyrri hálfleik en við sköpuðum okkur örugglega fleiri færi en þær. Það er partur af fótbolta,“ sagði Þorsteinn við 433.is eftir leik.
Íslenska liðið byrjaði í 3-5-2 kerfi í kvöld. Hvernig fannst honum það ganga?
„Ekkert allt of vel. Við breyttum náttúrulega og það er ástæða fyrir því.“
Þorsteinn var spurður út í miðsvæði íslenska liðsins sem virtist eiga í vandræðum með finnska liðið á köflum.
„Maður sér leikinn stundum ekkert allt of vel þarna á hliðarlínunni. Það er fáránleikinn við að vera þjálfari. Mér fannst við vera í smá basli með þær. Við vorum að hleypa þeim í gegnum miðsvæðið og vorum ekki að ná að færa þær út til hliðanna svo við gætum yfirmannað svæðið og lokað á þær þar.“
Það má ætla að Þorsteinn breyti um kerfi fyrir leikinn gegn Austurríki eftir fjóra daga.
„Ég held að ég sé búinn að spila 25 leiki í 4-3-3 og tvo leiki í 3-5-2 þannig þú mátt bara giska.“
Viðtalið í heild er hér að neðan.