Íþróttavikan er komin á fulla ferð hér á 433.is og í Sjónvarpi símans. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson fá til sín góða gesti í hverri viku og ræða það helsta úr heimi íþrótta. Í þetta sinn var gesturinn fyrrum Alþingismaðurinn Brynjar Níelsson.
Aðstöðumál íþróttafélaga voru tekin fyrir í þættinum. Benti Brynjar þá á að ríkið þyrfti að setja meiri fjármuni í íþróttastarf.
„Vandamálið er að það er liður í fjárlögunum um listir, menningu og íþróttir. Íþróttir eru ekkert að fá úr þessu. Þetta er allt sett á sveitafélögin. Ég verð nú að segja það að ríkið hefur staðið sig mjög illa í uppbyggingu íþrótta,“ segir Brynjar.
„Það er verið að halda utan um nánast öll börn og ungmenni í landinu. Þarna læra þau að vera í liði, vinna og tapa. Þetta er ríkisvaldinu algjörlega óviðkomandi.
Íþróttafélögin eru bara orðin svo stór hluti af innviðum samfélagsins. Þetta er svipað og björgunarsveitirnar í mínum huga. Þetta er meira og minna sjálfboðastarf, ofboðslega mikilvægt en samt erum við að eyða peningunum í annað, sem mér finnst ekki gott.“
Umræðan í heild er í spilaranum.