Garðar Emanúel Cortes, óperusöngvari, er látinn. Hann kom að íslensku tónlistarlífi frá mörgum hliðum sem ýmist kórstjórnandi, óperusöngvari, hljómsveitarstjóri, óperustjóri og söngskólastjóri. Hann stofnaði einnig hljómsveitir, kóra, tónlistarskóla og óperu.
Hann ákvað að fórna frama á alþjóðavísu til að sinna hugsjón sinni hér á landi í söng- og óperumálum.
Hann fæddist í Reykjavík árið 1940 og benti fyrst frátt til þess að hann yrði jafn merkur tónlistarmaður og hann varð. Hann var þó af listrænu fólki kominn. Föðurbróðir hans var Óskar Cortes fiðluleikari og kórstjórnandinn og bassaleikarinn Jón Kristin Cortes var bróðir hans. Þrjú börn Garðars af fjórum hafa eins helgað sig söng.
Ætlaði Garðar upphaflega að verða guðfræðingur og nam hann það fag í tvö ár í Bretlandi. Hann íhugaði eins að verða flugumferðarstjóri en örlögin gripu inn og í London 1963 hóf hann söngnám auk hljómsveitar- og kórstjórnun. Þaðan lauk hann kennaraprófi og vann samhliða námi sínu við ýmis störf og söng Bítlalög á krám. Hann átti svo eftir að sækja sér framhaldsnám í söng í Austurríki og á Ítalíu.
Þegar hann lauk námi í Bretlandi árið 1969 bauðst honum að starfa í Bretlandi og starfaði hann í skamma hríð við kennslu, kór- og hljómsveitastjórnun. Síðan hafnaði hann starfi frá BBC og ákvað að koma frekar heim til Íslands þar sem hann gerðist tónlistarkennari og skólastjóri við tónlistarskólann á Seyðisfirði og söng og lék hlutverk í Pilti og stúlku.
Ári síðar hélt hann til Reykjavíkur þar sem hann stjórnaði karlakórnum Fóstbræður og vann við tónlist hjá Þjóðleikhúsinu. Um tíma stjórnaði hann Þjóðleikhúskórnum og Samkór Kópavogs.
Hann stofnaði svo Söngskólann í Reykjavík sumarið 1973 og varð skólastjóri þess skóla. Kenndi hann einnig við skólans og hafa margir þekktustu óperusöngvarar landsins setið tíma hjá honum, svo sem Viðar Gunnarson, Kolbeinn Ketilsson, Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Bjarni Thor Kristinsson og svo sonur hans og nafni – Garðar Thor Cortes.
Garðar söng fjölda hlutverka í óperum sem settar voru upp hér á landi og gegndi hlutverki óperustjóra um árabil. Hann stýrði Óperunni í Gautaborg í Svíþjóð við upphaf tíunda áratugarins í fimm ár og söng í óperum og á tónleikum víða um Norðurlönd, á Bretlandi, í Bandaríkjunum og í Suður-Ameríku.
Hann kom við sögu á mörgum útgefnum plötum, ýmist sem einsöngvari eða sem kórstjórnandi og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, sú stærsta líklega fálkaorðan.
Nánar má lesa um ævi og störf Garðars hjá Glatkistunni.
Garðar lætur eftir sig eiginkonu, tónlistarkennarann og píanóleikarann Krystynu Cortes, fjögur börn og níu barnabörn.
„Ég ákvað í rauninni mjög seint að læra söng. Ég tók þá ákvörðun 23 ára gamall og hafði þá lítið sem ekkert lært. Upphaflega ætlaði ég að læra að verða prestur og var byrjaður á því námi í Bretlandi. Mér fannst það nokkuð erfið ákvörðun að skipta um námsferil og kom hingað heim í heilt ár til að hugsa mig um. Söngvarinn sigraði prestinn og ég lauk námi í söng 29 ára gamall 1969,“ sagði Garðar í samtali við helgarblað DV árið 2000. Hann sagði við sama tilefni: „Ég er enn að læra söng og fer á námskeið enn þá því það er ævistarf að vera söngvari.“
Ári áður spurði DV Garðar hvort hann hefði séð eftir því að hafa ekki snúið sér að einsöngsferil í stað þess að verja ævinni í að byggja upp söng- og tónlistarstarf á Íslandi. Því svaraði Garðar: „Sálin var bara föst hér heima; í óperunni, skólanum og hjá fjölskyldunni.“