fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fókus

Tólf góð ráð úr smiðju Gurrýjar fyrir byrjendur í garðrækt

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 15. apríl 2023 10:00

Guðríður Helgadóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur og líffræðingur, Gurrý í garðinum, hefur unnið við garðyrkjutengd störf allan sinn starfsferil og frætt almenning um garðyrkju með margvíslegum hætti, í útvarpi, sjónvarpi og öðrum miðlum.

Bókin Fjölærar plöntur var að koma út, en í henni fjallar Gurrý um fjölærar plöntur sem henta í íslenska garða en hún hefur lengi haft sérstakt dálæti á fjölæringum hvers konar. Flestar tegundir í bókinni eru vel þekktar í ræktun en innan um og saman við eru sjaldgæfari dýrindi.

Alls koma tæplega 180 tegundir við sögu í bókinni og eru hverri tegund gerð skil í máli og myndum á heilli opnu. Bókin hentar jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna og Gurrý deilir hér tíu góðum ráðum fyrir byrjendur.

Tólf góð ráð fyrir byrjendur í garðrækt

1.Ef verið er að byrja með glænýjan garð frá grunni er mjög skynsamlegt að fá ráðleggingar hjá fagmönnum um skipulag garðsins. Garður er í raun framlenging af heimilinu og því þarf að huga vel að þörfum alls heimilisfólks við hönnun og skipulag garða. Jafnframt þarf umhirða garðsins að vera í samræmi við áhuga og eljusemi garðeigenda.

2.Ef fólk hefur nýlega eignast gamlan og gróinn garð er skynsamlegt að byrja á að kynna sér hvaða plöntur er að finna í garðinum og jafnvel að bíða með stærri framkvæmdir fyrsta sumarið, það er aldrei að vita nema einhverjar framtíðaruppáhaldsplöntur komi í ljós. Við þessar aðstæður er tilvalið að fá garðyrkjufræðing á staðinn sér til ráðleggingar.

3.Allir geta á sig sumarblómum bætt. Sumarblóm eru frábær leið til að gera sumarið litríkt og ánægjulegt og ekki veitir nú af eftir veturinn. Mikið úrval er til af sumarblómum og þau er hægt að rækta hvar sem er, í beði úti í garði, í kerjum og pottum á pallinum eða svölunum eða við sumarbústaðinn.

4.Fjölærar plöntur hafa þann kost að þær koma upp á sama stað ár eftir ár. Blómgunartími er mismunandi milli tegunda, sumar blómstra mjög snemma á vorin, aðrar snemmsumars og svo koll af kolli langt fram á haust. Með því að raða saman mismunandi tegundum er því hægt að tryggja að alltaf sé einhver planta í blóma í beðinu.

5.Stór tré ætti ekki að gróðursetja í litla garða og reyndar eru ákvæði í byggingarreglugerð um það hversu langt frá lóðarmörkum megi gróðursetja tré. Til er fjöldi tegunda af penum trjám og runnum sem fara vel í garði og fylla ekki upp í rýmið á augabragði.

6.Grasflötin þarf sína umhirðu og að jafnaði er ágætt að slá blettinn á tvisvar til þrisvar í mánuði yfir sumarið og eftir sláttinn þarf að raka saman grasinu og koma því fyrir í safnkassanum. Sumir slá mun oftar og er það alveg í góðu lagi, jafnvel hafa margir garðeigendur komið sér upp litlum slátturóbótum sem eru í gangi meira og minna allt sumarið og þarf þá ekki að raka saman grasið og hirða það upp, það er svo smátt að það fellur bara niður í svörðinn.

7.Tími trjáklippinga er á vorin og fram á sumar. Á vorin er tilvalið að fara í vaxtarmótandi klippingu því þá sést byggingarlag trjáplantna vel. Einnig er skynsamlegt að klippa tré og runna á sumrin því þá eru plönturnar mjög fljótar að loka sárum sínum. Til að trjáklippingarnar þjóni tilgangi sínum þarf að þekkja þær tegundir sem eru til staðar og kemur þá til kasta garðyrkjufræðingsins í ráði númer 2, hann getur leiðbeint eða tekið að sér klippingarnar.

8.Áburðargjöf er nauðsynleg í görðum. Best er að fylgja þeim leiðbeiningum sem eru á umbúðum tilbúins áburðar en ef um húsdýraáburð er að ræða skiptir aðallega máli að hann sé ekki glænýr, þá er hann svo sterkur. Hér er einnig mikilvægt að hafa í huga að minna er betra, ofskammtur af áburði getur skemmt eða jafnvel drepið plöntur.

9.Vökvun er lykilatriði í ræktun, sérstaklega fyrir ungar plöntur og plöntur í kerjum og pottum. Best er að vökva á morgnana þannig að plönturnar fari vel safaspenntar inn í daginn. Ef þörf er á því að vökva um miðjan daginn er heppilegt að hafa vatnið ekki ískalt og forðast að úða því yfir blöð plantnanna, vökva frekar í moldina. Vökva þarf þar til moldin er orðin rök vel niður fyrir rótakerfi plantnanna þannig að þetta er þolinmæðisverk.

10.Meindýr og sjúkdómar geta gert vart við sig á ræktunarplöntunum. Sýkt blöð og greinar er skynsamlegt að klippa í burtu og farga, þ.e. ekki setja slíkt í safnhauginn. Meindýr eru af ýmsum toga og geta sum valdið talsverðum usla í ræktun en mörg þeirra eru mikilvæg fæða fyrir garðfugla. Garðyrkjufræðingar mæla því frekar með því að fólk úði ekki garða sína nema að vel athuguðu máli og þá jafnvel einungis þær uppáhaldsplöntur sem standa höllum fæti í stríðinu við meindýrin. Ýmiss konar lífrænar sápur og olíur eru góður valkostur til að slá aðeins á fjölda meindýranna.

11.Fátt er betra en fyrsti kaffibollinn á morgnana úti í garði, innan um blómstrandi gróður, suðandi býflugur og syngjandi fugla, garður er staður til að njóta og þeir eru alls konar og síbreytilegir, ef eitthvað virkar illa í garðinum er bara um að gera að breyta því til hins betra.

12.Ekki gefast upp ef plöntur deyja, það er tækifæri til þess að fá sér nýja og spennandi plöntu í staðinn fyrir þá sem varð bráðkvödd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að leikstjóri hafa reynt að gera út af við feril hennar því hún stóð í lappirnar gegn honum

Segir að leikstjóri hafa reynt að gera út af við feril hennar því hún stóð í lappirnar gegn honum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jónas kvartaði yfir ljósum á tónleikum Norah Jones – „Líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð“

Jónas kvartaði yfir ljósum á tónleikum Norah Jones – „Líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kate Beckinsale útskýrir af hverju hún er búin að grennast svona mikið

Kate Beckinsale útskýrir af hverju hún er búin að grennast svona mikið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stórstjarnan lét óræða athugasemd falla um erfiðleika lífsins

Stórstjarnan lét óræða athugasemd falla um erfiðleika lífsins
Fókus
Fyrir 5 dögum

Khloé Kardashian greinir frá öllum fegrunaraðgerðum sem hún hefur gengist undir

Khloé Kardashian greinir frá öllum fegrunaraðgerðum sem hún hefur gengist undir
Fókus
Fyrir 5 dögum

Nýjar myndir af „veikburða“ Ryan Seacrest valda áhyggjum

Nýjar myndir af „veikburða“ Ryan Seacrest valda áhyggjum