Tveir leikir fóru fram í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Fyrir kvöldið beindust flest augu á Santiago Bernabeu þar sem heimamenn í Real Madrid tóku á móti Chelsea.
Eftir öfluga byrjun gestanna tók Real Madrid við sér og Karim Benzema kom þeim yfir á 21. mínútu. Hann var réttur maður á réttum stað og fylgdi eftir tilraun Vinicius Junior sem Kepa Arrizabalaga hafði varið.
Staðan í hálfleik var 1-0.
Útlitið varð svart fyrir Chelsea eftir tæpan klukkutíma leik þegar Ben Chilwell fékk beint rautt spjald. Hann braut þá af sér sem aftasti maður og dómarinn hafði engra kosta völ.
Chelsea hélt heimamönnum nokkuð vel í skefjum eftir þetta þrátt fyrir erfiða stöðu en á 74. mínútu rataði skot Marco Asensio í markið og forysta Real Madrid tvöfölduð.
Mason Mount fékk besta færi Chelsea í uppbótartíma en Antonio Rudiger bjargaði heimamönnum.
Meira var ekki skorað og lokatölur 2-0.
AC Milan tók þá á móti Napoli á San Siro.
Heimamenn voru sterkari í leiknum og skoraði Ismael Bennacer eina markið á 40. mínútu. Hann setti boltann í markið eftir frábæran undirbúning Brahim Diaz í aðdragandanum.
Það er ekki nóg með það að Napoli fari marki undir í seinni leikinn suður frá heldur verða tveir lykilmenn í banni.
Miðvörðurinn Zambo Anguissa fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 74. mínútu og þá uppskar Min-Jae Kim, lykilhlekkur í hjarta varnarinnar, gult spjald sem setur hann í leikbann.
Seinni leikirnir fara fram á þriðjudag.