Undir lok sjötta áratugs síðustu aldar brann fátt heitar á borgarbúum en hitaveitumálið. Aðeins hluti Reykvíkinga bjó þá við hitaveitu en þeir hinir sömu borguðu helmingi minna fyrir hitann og losnuðu að auki við þann ama sem fylgdi kola- og olíukyndingu.
Geir Hallgrímsson varð borgarstjóri 1959 og gekk hreint til verks í þessum efnum. Ljóst var að finna þyrfti öflugan framkvæmdamann til að stýra Hitaveitunni á næstu árum. Geir leitaði til Jóhannesar Zoëga verkfræðings sem tók verkefnið að sér sem að margra áliti var óvinnandi vegur. Í kjölfarið var meðal annars keyptur nýr djúpbor svo hægt var að auka afkastagetuna svo um munaði. Á fáeinum árum var hitaveita lögð í öll nýju hverfin í borginni.
Í desember 1967 kom vondur frostakafli í viku. Heitavatnsskorturinn varð verulegur og borgarbúar skulfu af kulda. Jóhannes (sem þá fékk viðurnefnið „kuldaboli“) var ófeiminn við að mæta á almenna borgarafundi og treysti sér til að fullyrða að svona myndi ekki fara í næsta kuldakasti — nýjar dælur væru rétt ókomnar til landsins. Með snarræði tókst að flytja þær hingað og gangsetja fyrir jólin. Rétt eftir áramótin kom skarpt kuldakast og gátu borgarbúar haldið hita á húsum sínum þrátt fyrir að heitavatnsgeymarnir tæmdust. Síðan þá hafa geymarnir aldrei tæmst en fram að þessu höfðu þeir tæmst allt að hundrað sinnum á ári.
Jóhannes Zoëga tók saman skrá um þann sparnað sem viðskiptamenn Hitaveitunnar hefðu notið á árunum 1944–2002 miðað við það að hita hús sín með olíukyndingu. Sá kostnaður var þá uppreiknaður sem samsvaraði fimm Kárahnjúkavirkjunum. Hér væru þá ótaldir aðrir kostir hitaveitunnar umfram olíukyndingu. Jóhannes gerði grein fyrir þessum útreikningum í endurminningum sínum og skrifaði svo: „Engin furða að fyrir þessu hafi verið barist á sínum tíma í borgarstjórn. Nú minnist enginn borgarfulltrúi á hitaveitu. Það er oft erfitt að gæta fengins fjár.“ Þessi tilvitnuðu ummæli féllu fyrir meira en tveimur áratugum og hygg ég að lítið sem ekkert hafi verið rætt um hitaveituna í borgarstjórnarsalnum allan þann tíma sem liðinn er.
„Takið eftir, nú er árið 2020“
Í janúar sl. gerði ég að umtalsefni hér á þessum vettvangi viðvarandi raforkuskort sem varð þess valdandi að Landsvirkjun gat ekki afhent orku til loðnubræðslna og þær því keyrðar á olíu. Í þessu sambandi velti ég því upp að svo virtist sem grundvallarmál sem þessi fengju litla athygli stjórnmálamanna. Margir hefðu hreinlega misst sjónar á því að góð lífskjör okkar hvíldu ekki hvað síst á greiðu aðgengi að orku. Velmegunin gerði menn jafnvel firrta og alls kyns aukaatriði ættu sviðið í stjórnmálunum vikum og mánuðum saman.
Annað grundvallarmál varð að fréttaefni í liðinni viku en á opnum fundi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, sl. fimmtudag var rætt um yfirvofandi skort á heitu vatni. Núverandi vinnslusvæði afköstuðu ekki meiru og mikið verk væri fyrir höndum að leita að jarðhita. Fyrir vikið væru stórauknar líkur á að skammta þyrfti heitt vatn frysti dögum saman. Í þróuðu ríki gríðarlegra orkuauðlinda, vatnsafls og jarðhita, blasir því ekki eingöngu við raforkuskortur heldur sömuleiðis skortur á heitu vatni. Hvernig má þetta eiginlega vera?
Í desember fyrir tveimur árum birtist í Fréttablaðinu grein Árna Gunnarssonar, fyrrv. yfirverkfræðings Hitaveitu Reykjavíkur, en greinin var í formi opins bréfs til stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur. Tilefnið var að þá höfðu stjórnendur Orkuveitunnar varað borgarbúa við yfirvofandi heitavatnsskorti þriðja árið í röð. Árni skrifaði:
„Takið eftir, nú er árið 2020. Síðast tæmdust miðlunargeymar Hitaveitunnar 4. janúar 1968, fyrir meira en hálfri öld! Upp frá því tókst að fullnægja þörfum veitunnar þar sem vel tókst til við boranir, þróun áreiðanlegra öxul-borholudæla, byggingu miðlunargeyma og svo framvegis, þrátt fyrir ævintýralegan vöxt Hitaveitunnar þegar öll hverfi borgarinnar voru tengd veitunni. Síðar tók við tenging nágranna byggðarlaganna Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Álftaness og Kjalarness samhliða ört vaxandi höfuðborg.“
Undir lok níunda áratugarins hefði þó þurft að starfrækja olíukyndistöðvar dögum saman til að afstýra vatnsskorti en taflið hafi snúist við þegar Nesjavallavirkjun var tekin í gagnið í september 1990.
Í framhaldinu spurði Árni áleitinna spurninga; hvernig það gæti staðist að aflgeta hitaveitunnar nægði ekki lengur til að standa undir álagi þegar frost væri úti samfellt í nokkra daga en á sama tíma hefði hitaveitan „aðgang að margfalt meiri varmaorku á Nesjavöllum og Hellisheiði, óbeislaðri svo ekki sé minnst á þá sem þar er sóað vegna ágengrar raforkuvinnslu langt umfram þarfir Hitaveitunnar.“
Sóun jarðvarmans
Jóhannes Zoëga segir í endurminningum sínum að Nesjavellir séu umfram allt framtíðarorkulind hitaveitunnar. Rafmagnsframleiðslan þar ætti að takmarkast við það sem samsvarar hitaveituaflinu hverju sinni. Jóhannes gagnrýndi því harkalega þau áform Orkuveitunnar á sínum tíma að reisa raforkuver þar sem einungis hluti afgangsorkunnar væri nýttur fyrir hitaveitu. Grípum niður í endurminningar hans:
„Með þessu móti er aðeins þriðjungur hrávarmans nýttur, tveimur þriðju er fleygt, og að þrjátíu árum liðnum er holuaflið orðið helmingur þess sem það var í byrjun. Mest allt rafmagnið er selt til stóriðju og vafasamt er að verðið standi undir framleiðslukostnaði. Tapið er aðallega í formi heits vatns sem rennur niður í Nesjahraunið engum til gagns. Eftir nokkra áratugi með sama háttalagi má búast við því að afl virkjunarinnar fari að minnka verulega, og nokkrir áratugir eru ekki langur tími í sögu hitaveitu eða borgar.“
Hann bætti því svo við að vatnið sem streymdi í gegnum heit berglögin og væri notað í orkuverinu bæri með sér varmann úr berginu sem kólnaði um leið. Yrði kæling þess örari en varmastreymið frá djúpgeymi jarðhitasvæðisins minnkaði aflið smám saman en Jóhannes sagði alla sóun jarðvarmans stríða á móti hagfræðilegum jafnt sem siðferðilegum sjónarmiðum.
Árni Gunnarsson velti því upp í áðurnefndri fréttablaðsgrein að ýmsum spurningum væri ósvarað í þessu efni. Útsvarsgreiðendur á Stór-Reykjavíkursvæðinu, eigendur hitaveitunnar, ættu rétt á að vera upplýstir um það hvernig það gat gerst að ekki væri hægt að fullnægja hitaþörf notenda í kuldatíð. Eins þyrfti að svara því hvernig ætti að koma í veg fyrir hættu á skorti á heitu vatni í framtíðinni. Síðan eru liðin tvö ár og ég minnist þess ekki að hafa heyrt nokkurn borgarfulltrúa Reykvíkinga tjá sig um þetta mál. Er til of mikils mælst að slík grundvallaratriði — mál er varða undirstöður velmegunar og lífskjara landsmanna séu uppi á borðum hjá kjörnum fulltrúum?