Framherjinn Charlie Austin gagnrýnir Ralph Hasenhuttl harðlega, degi eftir að sá síðarnefndi var rekinn sem stjóri Southampton í ensku úrvalsdeildinni.
Southampton er í fallsæti deildarinnar og var ákveðið að láta Hasenhuttl fara.
Hinn 33 ára gamli Austin var á mála hjá Southampton þegar Hasenhuttl tók við í desmeber 2018. Hann var þó farinn til WBA aðeins hálfu ári síðar.
„Það snerist allt um hann. Hann var fljótur að henda liðinu undir rútuna þegar illa gekk. Þegar það gekk vel snerist hins vegar allt um hann,“ segir Austin.
„Þegar þú ert spurður út í það hvort liðið geti komist úr vandræðum getur þjálfari ekki sagt nei. Þú verður að blása trú í brjóst leikmanna þinna, jafnvel þó þú trúir því ekki sjálfur.“
Austin á erfitt með að segja að Southampton hafi í heildina gengið vel undir stjórn Hasenhuttl.
„Þeir hafa ekki endað í efri hlutanum síðan hann kom. Er hægt að segja að honum hafi gengið vel? Maður verður eiginlega að segja nei en hann hélt þeim í úrvaldseildinni. Þetta fer svolítið eftir því hver metnaður félagsins er.“
Austin leikur í dag með Brisbane Roar í Ástralíu.