Graham Potter, stjóri Chelsea, hefur tjáð sig um sóknarmanninn Pierre Emerick Aubameyang sem leikur með liðinu.
Oft hefur verið talað um Aubameyang sem vandræðagemsa en honum var í raun sparkað burt frá Arsenal í byrjun árs.
Potter hefur ekki upplifað neitt nema góða hluti hingað til en hann tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea fyrr á tímabilinu.
Aubameyang birtir reglulega myndir af sér á samskiptamiðlum og fer ekki á milli mála að hann hefur þénað verulegar upphæðir á sínum ferli.
,,Þú getur ekki mætt of seint þegar þú keyrir þessa bíla er það?“ sagði Potter léttur á blaðamannafundi en Aubameyang hefur verið ásakaður um að mæta of seint á æfingar og fundi.
,,Allir eru öðruvísi. Bara því þú keyrir sportbíl þá segir það ekki allt um þinn persónuleika eða karakter. Það er möguleiki að þú sért bílaáhugamaður.“
,,Það sem ég hef upplifað af honum er mjög gott. Hann er mjög hljóðlátur náungi, miðað við hvernig hann lítur út að utan myndirðu halda að hann láti mikið fyrir sér fara en svo er ekki raunin.“
,,Við erum ekki með sama fatasmekk en við erum svipaðir á einhvern hátt. Hann er fjölskyldumaður með börn.“