Sögusagnir þess efnis að nafn Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins og katarska félagsins Al-Arabi sé upp á borðinu hjá íraska knattspyrnusambandinu sem næsti landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íraks, hafa skotið upp kollinum og fjallað var um málið í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.
,,Hafið þið eitthvað heyrt hvert Heimir er að fara?“ spurði Hjörvar Hafliðason, umsjónarmaður Dr. Football sérfræðinga þáttarins sem svöruðu þeirri spurningu neitandi.
,,Ég hitti Heimi á vellinum í gær og spurði hann ekki neitt út framtíðina en það var laumað að mér einu landsliðsverkefni fyrir hann og mér finnst það meika sens. Þetta eru mínir gömlu félagar í Írak. Þeim hefur vantað þjálfara núna í einhvern tíma. Þetta eru engir smá gæjar sem hafa verið að þjálfa Írakana, Dick Advocaat, Zico var með liðið hér í denn og svo tóku þeir nú Egil Drillo Olsen á sínum tíma.“
,,Heimir er með þennan landsleikjafótbolta upp á 10 að mörgu leyti,“ sagði Jóhann Már Helgason, annar af sérfræðingum þáttarins um þetta slúður. ,,Hann gerði fáránlega vel með íslenska landsliðið og á örugglega upp á pallborðið hjá fullt af knattspyrnusamböndum þar. Ég ætla samt að segja að ég var að vonast eftir því að sjá annað skref á hans ferli ef þetta er staðan. Ef hann ætlaði ekki að koma heim vildi ég sjá hann taka við einhverju liði á Norðurlöndunum.