Liverpool tryggði sér í kvöld farseðilinn í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Liverpool menn voru heillum horfnir í fyrri hálfleik og komst Villarreal í 2-0. Klopp kveikti þó vel í sínum mönnum í hálfleik og átti Luis Diaz frábæra innkomu. Allt annað var að sjá til Liverpool í þeim seinni og endaði leikurinn 2-3, samtals 2-5.
Jurgen Klopp var ánægður með sigurinn og að vera kominn með Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í þriðja sinn.
„Hugarfarið okkar var ekki í lagi í fyrri hálfleik. Við vorum undir mikilli pressu. Til þess að laga fótboltann þurftum við að breyta hugarfarinu.“
Klopp bað Peter Krawietz, aðstoðarþjálfara, að finna eitt atvik úr fyrri hálfleiknum sem gekk vel til þess að sýna leikmönnum í hálfleik. Peter kom til baka og sagði „Ég finn ekkert.“
Er Klopp var spurður út í hvað hann sagði við leikmennina í hálfleik svaraði Klopp einfaldlega
„Ég sagði þeim að spila betur í seinni en í þeim fyrri!“
„Luis Diaz hafði mikil áhrif á leikinn en það þýðir alls ekki að Diogo Jota hafi verið vandamálið. Alls ekki. Við vorum með 11 vandamál í fyrri hálfleik og þurftum ferska fætur. Við vorum ekki að spila okkar leik.“