fbpx
Mánudagur 15.september 2025
Matur

Suðræn og ævintýraleg stemning í Gróðurhúsinu

Sjöfn Þórðardóttir
Þriðjudaginn 15. mars 2022 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gróðurhúsið opnaði í Hveragerði í desember síðastliðnum og má segja að lífið þar hafi dafnað og vaxið síðustu vikur og mánuði. Fjölbreytt starfsemi er í byggingunni sem höfðar bæði til Íslendinga og erlendra ferðamanna en þar er að finna hótel, mathöll, bar, lífstílsverslanir, kaffihús, matarmarkað og ísbúð.

Í þættinum Matur og heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar Gróðurhúsið og hittir Brynjólf Baldursson einn eiganda og fær að heyra um tilurð Gróðurhússins og hugmyndafræðina bak við það.

Matur og heimili stikla þáttur 10
play-sharp-fill

Matur og heimili stikla þáttur 10

„Við uppbyggingu Gróðurhússins hefur sjálfbærni verið höfð að leiðarljósi og nafnið því vel við hæfi enda Hveragerði þekkt fyrir sín fjölmörgu gróðurhús. Markmiðið er að gestir geti staldrað við í fallegu umhverfi og notið alls þess sem Gróðurhúsið hefur upp á að bjóða,“ segir Brynjólfur. Pálmatré og lifandi gróður prýðir Gróðurhúsið sem býður upp á suðræna og ævintýralega upplifun gesta.

„Gróðurhúsið er hjarta blómabæjarins og býður upp á fjölbreytt úrval veitingastaða í mathöllinni ásamt suðrænni upplifun á Nýlendubar. Einnig er í Gróðurhúsinu glæsilegt úrval af lífsstílsvörum þar sem gamalgróin vörumerki hafa komið sér fyrir ásamt nýrri sælkeraverslun og matarmarkaði,“ segir Brynjólfur og ánægður með hversu vel hefur tekist að sameina alla þessa þætti í Gróðurhúsinu.

Svo er þar að finna eina fallegustu ísbúð landsins Bongó sem ber nafn með rentu og er hönnuð af einum vinsælasta innanhússarkitekt landsins, Rut Kára. Rut og eiginmaður hennar Kristinn Arnarsson eiga og reka Bongó.

Hannaði og opnaði eigin ísbúð

„Það var alls ekki á dagskrá að fara að opna ísbúð, en þegar maðurinn minn kom heim einn daginn síðasta vetur með þessa hugmynd um ísbúð í Hveragerði þá sagði ég bara “já”! Ég hef það samt frekar fyrir reglu að segja alltaf nei fyrst þegar hann kemur með einhverjar nýjar hugmyndir,“ segir Rut og hlær.

Kristinn segir að viðbrögðin hafi í raun vakið undrun hjá honum. „Já, ég varð eiginlega bara hissa að fá svona góðar undirtektir hjá Rut. Ég vissi reyndar að hana langaði einhvern tímann að fá að hanna ísbúð, en svo þykir henni ís svo góður að það hefur líka örugglega haft sitt að segja. Þarna fengi hún gott tækifæri til að smakka alls konar ís! Þegar á reyndi þá var Rut hins vegar ómögulegur smakkari, því hún vildi alltaf smakka betur sömu tvær tegundirnar,“ segir Kristinn

Hönnunin á Bongó er einstaklega vel heppnuð og hugsað er fyrir hverju smáatriði. Grænn litur er ríkjandi í ísbúðinni á móti ljósum marmaranum í afgreiðsluborðinu og brasslitum ljósum. „Við fluttum svo inn franska kaffihúsastóla og marmara kaffiborð sem spila vel á móti brúnum leðurbekkum,“segir Rut sem naut sín við hönnunina í alla staði en draumur hennar var að opna ísbúð sem byði upp á franska kaffihúsastemningu sveipuð dulúð og notalegheitum. Nafnið á ísbúðinni, Bongó, á sér sögu og ekki bara það heldur hafði um leið áhrif á hönnunina. Rut og Kristinn svipta hulunni af sögunni bak við nafnið og allt sem því fylgir í þættinum í kvöld.

Meira um leyndardóma Gróðurhússins og ísbúðina Bongó í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
07.05.2025

Svona er matarbúrið hjá einni þekktustu konu heims – Eins og lítil verslun þar sem enginn draslar til

Svona er matarbúrið hjá einni þekktustu konu heims – Eins og lítil verslun þar sem enginn draslar til
Matur
29.04.2025

Uppáhalds matur barnæskunnar – „Ég skammast mín smá fyrir að segja þetta en það var kallað rónabrauð“

Uppáhalds matur barnæskunnar – „Ég skammast mín smá fyrir að segja þetta en það var kallað rónabrauð“
Matur
21.03.2025

„Við heyrðum neyðarkallið og ákváðum að bregðast strax við“

„Við heyrðum neyðarkallið og ákváðum að bregðast strax við“
Matur
03.03.2025

Elenora Rós er orðlaus yfir viðtökunum – „Mikið ofboðslega er ég lánsöm lítil kona“

Elenora Rós er orðlaus yfir viðtökunum – „Mikið ofboðslega er ég lánsöm lítil kona“
Hide picture