Oliver Stefánsson leikmaður Norköpping er á leið Í Breiðablik en ekki ÍA eins og allt stefndi í. Þetta var fullyrt í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag.
Oliver ólst upp hjá ÍA en var árið 2019 seldur til Norrköping þar sem hann hefur verið síðan. Oliver hefur verið virkilega óheppin með meiðsli í gegnum tíðina.
Þá hefur hann verið frá undanfarna mánuði eftir að blóðtappi fannst í öxl hans. Faðir hans er Stefán Þórðarson fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu og móðir hans, Magnea Guðlaugsdóttir er fyrrverandi landsliðskona og núverandi þjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson sagði í samtali við 433.is í desember að Oliver væri á heimleið. „Það er mjög líklegt, hann er að koma til baka og byrja að æfa með okkur eftir áramót,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA í samtali við 433.is í desember.
Nú virðist sem þessi 19 ára gamli leikmaður fari í Kópavoginn og spili undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar. Hann kemur á láni frá Svíþjóð.
Óliver Stefánsson fer í Breiðablik en ekki uppá Skaga. Og Þorleifur 100% í MLS deildina. https://t.co/GeZTCtbhsS
— Dr. Football Podcast (@drfootballpod) January 4, 2022