Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur varað við því að endurkoma Cristiano Ronaldo til Manchester United muni hafa neikvæð áhrif á fjóra leikmenn liðsins.
Ronaldo var keyptur til Manchester United frá Juventus undir lok sumars og skoraði hann tvö mörk í fyrsta leik í ensku deildinni.Carragher telur að Manchester United sé engu nær að berjast um Englandsmeistaratitilinn eða Meistarardeildina þrátt fyrir komu Ronaldo.
„Stóra spurningin er hvort að Ronaldo komi liðinu nær því að vinna ensku deildina og Meistaradeildina aftur. Mér finnst það ekki,“ sagði Carragher í dálki sínum í Daily Telegraph.
„United lítur enn út eins og samansafn stórkostlegra einstaklinga sem þarf að búa til lið úr.“
Carragher telur að endurkoma Ronaldo muni hafa neikvæð áhrif á Jadon Sancho, Paul Pogba, Edinson Cavani og Marcus Rashford.
„Ef hann er heill heilsu mun hann byrja frammi. Þá þurfa aðrir að breyta um stöður. Sancho er nú að berjast við Greenwood um stöðuna hægra megin. Auk þess eru afleiðingar fyrir Pogba sem byrjaði vel en var settur aftur á miðja miðjuna eftir komu Ronaldo. Svo er spurning hvað verður um Marcus Rashford og Edinson Cavani?“