Mark Clattenburg fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni segir það ráðgátu hvernig Manchester United fékk ekki vítaspyrnu gegn Chelsea í gær. Sterkt ákall var um það að United fengi vítaspyrnu snemma leiks.
Boltinn fór þá greinilega í höndina á Callum Hudson-Odoi leikmanni Chelsea, Stuart Atwell dómari dæmdi ekkert en VAR vildi að atvikið yrði skoðað.
„Mér finnst það ótrúlegt að Manchester United hafi ekki fengið víti í fyrri hálfleik, þetta var klár hendi á Hudson-Odoi,“ sagði Clattenburg sem lengi vel var besti dómari enska boltans.
„Höndin hjá leikmanninum var í ónáttúrulegri stöðu og boltinn fór svo greinilega í höndina hans,“ sagði Clattenburg.
„Chris Kavanagh sem var í VAR herberginu telur þarna að Atwell hafi misst af vítaspyrnu, hann sendir hann í skjáinn til að skoða málið. Að Atwell bendi ekki á punktinn eftir að hafa séð þetta frá nokkrum sjónarhornum er mér ráðgáta.“